Jól í skókassa...

Hvað er „Jól í skókassa“?
„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að tilteknir hlutir séu í hverjum kassa. Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM og KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Þá voru undirtektirnar frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala nær tvöfaldaðist síðustu jól þegar tæplega 5000 gjafir bárust. Það hefur því verið ákveðið að halda verkefninu áfram og vonumst við til þess að safna enn fleiri skókössum þetta árið.

Hvert fara skókassarnir?
Í ár, líkt og síðustu þrjú ár, verða skókassarnir sendir til Úkraínu. Í Úkraínu búa um 50 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift er allt að 80% atvinnuleysi og þar ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt. Kirkjan í Úkraínu er rússnesk rétttrúnaðarkirkja, en KFUM í Úkraínu starfar innan þeirrar kirkjudeildar. Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovskiy sem komið hefur hingað til lands í heimsókn og meðal annars kynnt sér starf KFUM og KFUK hér á landi.

Hvert á ég að skila skókassanum mínum?
Tekið verður á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg alla virka daga kl. 9:00 - 17:00. Síðasti móttökudagur verkefnisins verður laugardaginn 3. nóvember klukkan 11:00 - 16:00. Þann dag fer fram sérstök kynning á verkefninu, léttar veitingar verða í boði í kaffiteríunni og allir eru hjartanlega velkomnir. Fyrir þá sem eru staddir utan höfuðborgarsvæðisins er bent á að allir skókassar þurfa að hafa borist til Reykjavíkur fyrir 3. nóvember. Allar upplýsingar um hvert megi skila kössunum má finna á heimasíðunni www.skokassar.net eða í síma 588 8899.

Hvernig á að ganga frá skókassanum?
1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur: (2-4), (5-9), (10-14) eða (15-10. Á baksíðu þessa bæklings finnið þið tilbúinn merkimiða fyrir annað hvort strák eða stelpu. Klippið miðann út, merkið á hann aldursflokk viðtakanda og límið ofan á skókassann.
3. Setjið 300-500 krónur í umslag og leggið efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

Gjafir í skókassana
Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum af eftirtöldum flokkum:
• Leikföng. Sem dæmi má nefna litla bíla, bolta, dúkku, bangsa og jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
• Skóladót. Sem dæmi má nefna penna, blýanta, yddara, liti, litabækur, skrifbækur og vasareikni.
• Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta og tannkrem í kassann sinn. Einnig má setja sápustykki, greiðu, þvottapoka, hárskraut o.fl.
• Sælgæti. Sem dæmi má nefna sleikjó, brjóstsykur, pez og karamellur.
• Föt. Sem dæmi má nefna húfu, vettlinga, sokka, boli og peysu.

Hvað má ekki fara í skókassana?

• Mikið notaðir eða illa farnir hlutir
• Matvara
• Tyggjó
• Stríðsdót, s.s. leikfangabyssur, leikfangahermenn og hnífar.
• Vökvar, s.s. sjampó, krem, sápukúlur o.fl.
• Lyf, s.s vítamín, hálsbrjóstsykur, smyrsl o.fl.
• Brothættir hlutir, s.s. speglar, postulínsdúkkur o.fl.
• Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.Athugið!
Ef þú vilt getur þú sett mynd af þér ásamt nafni og heimilisfangi og/eða netfangi efst í skókassann. Það gefur viðtakanda skókassans möguleika á að setja sig í samband við þig. Þannig geta myndast vinatengsl sem varað geta lengi.

 http://www.kfum.is/files/nyr/file_manager/Úkraína%20Lengri%20Mynd.wmv

Ég er búin að útbúa mína 4 jól í skókassa ætla fara með þá í vikunni.....hvað með þig !!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún

jamm eða sko fyrst vissi ég það of seint, þar á eftir vissi ég ekki hvert átti að skila því og í fyrra var ég nú eiginlega að of upptekin af sjálfri mér til að muna þetta,þannig að ég sendi bara 4 kassa núna í staðin til að bæta upp öll hin 3 skiptin og taka þátt núna

Guðrún, 25.10.2007 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband