22.6.2007 | 18:57
Fjöldaganga gegn umferðaslysum
Fréttatilkynning frá frumkvæðishópi hjúkrunarfræðinga á LSH, 21. júní 2007 Jón Aðalbjörn Jónsson hjúkrunarfræðingur hannaði merkið hér til vinstri og færði Landspítala-háskólasjúkrahúsi að gjöf í tilefni göngunnar gegn umferðarslysum. Fjöldaganga gegn umferðarslysum Hjúkrunarfræðingar á Landspítala-háskólasjúkrahúsi efna til fjöldagöngu gegn umferðarslysum á þriðjudaginn kemur, 26. júní, kl:17:00 til vekja almenning til umhugsunar um afleiðingar hraðaksturs og þess að aka bíl undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja. Hópur hjúkrunarfræðinga á spítalanum hafði frumkvæði að viðburðinum og hefur nú þegar fengið baráttukveðjur og stuðningsyfirlýsingar úr mörgum áttum, meðal annars úr röðum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, lögreglumanna, lækna, sjúkraþjálfara, sjúkraliða presta og iðjuþjálfara. Þá hafa forstjóri, hjúkrunarforstjóri og fleiri stjórnendur Landspítala-háskólasjúkrahúss lýst stuðningi við framtakið. Safnast verður saman á þriðjudaginn 26. júní við sjúkrabílamóttöku LSH við Hringbraut, Eiríksgötumegin, og lagt af stað kl. 17:00. Gengið verður fram hjá slökkvistöðinni við Öskjuhlíð og áfram sem leið liggur að þyrlupallinum við LSH í Fossvogi. Gaman væri ef allar starfsstéttir kæmu í sínum búningum. Allir eru velkomnir og um að gera að kippa fjölskyldunni með. (Minnum á bílastæði fyrir neðan gömlu Hringbraut) Bríet Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild LSH, ávarpar göngufólk við upphaf ferðar og Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarforstjóri LSH, flytur ávarp á leiðarenda. Hjúkrunarfræðingar munu halda á lofti rauðum blöðrum í göngunni sem tákni fyrir þá sem slasast hafa alvarlega í umferðinni á árinu 2006. Sjúkraflutningamenn munu halda á lofti svörtum blöðrum í minningu þeirra sem fórust í umferðinni á sama tíma. Blöðrunum verður sleppt við þyrlupallinn í fundarlok. Þannig viljum við enda athöfnina táknrænt í minningu þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni og til að sýna fórnarlömbum alvarlegra umferðarslysa samhug og samstöðu. Sýnum samstöðu og styrk mætum !
Hvers vegna göngum við gegn umferðarslysum? Umferðin tekur geigvænlegan toll á hverju ári. Við viljum, með göngu gegn slysum í umferðinni, skora á landsmenn alla að taka sér tak, fyrst og fremst með því að aka ekki hraðar en lög og aðstæður leyfa og setjast aldrei undir stýri undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja. Í heilbrigðisþjónustunni okkar er öflugt starfslið og því er annt um þá sem eru hjálpar og aðstoðar þurfi. Slys snerta marga: nána aðstandendur, aðra ættingja, vini og félaga. Slys snerta líka okkur heilbrigðisstarfsfólk og það meira en margan grunar. Mikið var um alvarleg slys síðastliðinn vetur, með afleiðingum sem eru í mörgum tilvikum svo alvarlegar að varðar starfsgetu, athafnafrelsi og lífshamingju fjölda fólks það sem eftir er ævinnar. Alvarlegustu slysin verða jafnan í umferðinni Árlegur kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa mælist í milljörðum króna. Umferðarslys eru algeng þátt fyrir að þeim hafi fækkað hlutfallslega á undanförnum árum. Eftir stendur að alvarlegustu slysin hérlendis eiga sér jafnan stað í umferðinni og hegðun of margra ökumanna bendir því miður til þess að við sjáum ekki fyrir enda á þessum ósköpum. Það er til dæmis beinlínis óskiljanlegt að fólk sé staðið að ofsaakstri dag eftir dag, jafnvel á sama vegarkafla og á sama sólarhring sem dauðaslys áttu sér stað vegna hraðaksturs, að því er ætla má. Það vekur okkur líka ugg að frétta í gegnum fjölmiðla að það gerist nú aftur og aftur að menn séu grunaðir um að aka bílum undir áhrifum fíkniefna. Sumarið er tíminn.... Sumarið er ekki tími birtu, sólar og gleði fyrir alla landsmenn. Ef að líkum lætur dregur ský fyrir sólu hjá mörgum manninum í einni andrá í sumar og við tekur tími sorgar, vanlíðunar og erfiðleika af ýmsu tagi. Við sem tökum á móti slösuðu fólki finnum óneitanlega fyrir kvíða nú sem fyrr vegna sumarumferðarinnar og afleiðinga alvarlegra slysa sem við verðum því miður að gera ráð fyrir að þurfa að upplifa enn og aftur. Við fáum sting í hjartað við að heyra sírenuvæl eða hljóð í þyrlu. Þess vegna segjum við stopp og biðjum landsmenn um að taka undir með okkur. Við viljum ekki fleiri viðskiptavini úr umferðarslysum, heldur vonum innilega að fólk fái að njóta lífsins í orðsins fyllstu merkingu í sumar og framvegis! Göngum gegn umferðarslysum 26. júní kl 17:00 ! Fyrir hönd hjúkrunarfræðinga á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, Frumkvæðishópurinn (BAS stelpurnar www.bas.is), sími 696 4615: Bríet Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu LSH, Anna I. Arnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á almennri skurðdeild LSH, Soffía Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur á almennri skurðdeild LSH.
Mætum öll
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.